22.12.2014 10:18

Borgargirðing - smölun

Orðsending til þeirra sem eru með hross í haustbeit hjá Skugga - frá Beitarnefnd Skugga!

Smölun á Borgargirðingunni fer fram laugardaginn 27. desember n.k. og hefst smölun kl. 11:00.
Allir þeir sem eiga hesta í Borgargirðingunni eru vinsamlegast beðnir um að mæta stundvíslega við hliðið og taka þátt í smöluninni.

Þeir sem eiga hross í haustbeit á vegum Skugga, annarsstaðar en í Borgargirðingunni, skulu hafa samband við Ólaf Þorgeirsson, form. beitarnefndar (sími: 899-6179), vegnar losunar úr þeim beitarhólfum.

P.s.  Þar sem tíðarfar hefur verið mjög erfitt fyrir hross á undanförnum dögum og vikum er hesteigendum bent á að nauðsynlegt er að fylgjast vel með hrossum í haustbeit - og útigangi almennt.  Eigendur þurfa að fullvissa sig um að hrossin séu vel haldin og hafi aðgang að einhverri beit eða heyfeng.  Heyrst hefur að töluvert beri á því nú að hrossin séu að fá "hnjúska" og þarf því hver og einn að fylgjast vel velferð sinna hrossa!

Að lokum:
Nú gengur jólahátíðin senn í garð og því vil ég nota tækifærið og óska öllum félagsmönnum og fjölskyldum þeirra gleðilegrar jólahátíðar og gæfuríks komandi árs.


Bestu jólakveðjur,
f.h. Beitarnefndar Hmf. Skugga /...óþ
Stefán Logi Haraldsson

12.12.2014 00:51

Lausaganga hunda

Ágætu Skugga-félagar,

Að gefnu tilefni er bent á að samkvæmt "samþykkt um hesthús og umgengni í hesthúsahverfi í Borgarbyggð", sem samþykkt var af sveitastjórn Borgarbyggðar og undirrituð af Umhverfisráðherra 23. okt. 2012 - er lausaganga hunda bönnuð í hesthúsahverfinu.  Þar segir í 6.gr. "Hundar skulu ekki vera lausir í hesthúsahverfinu og nágrenni sbr. samþykkt um hunda- og kattahald í Borgarbyggð nr. 107/2008 og auglýsingu nr. 480/2006 um fólkvang í Einkunnum, Borgarbyggð".

Töluverð brögð hafa verið á því að þetta bann sé ekki virt og berast undirrituðum oft kvartanir þar um, frá félögum í Skugga og öðrum sem þarna eiga leið um!  
Eigi félagar í Skugga þátt í því að þessi samþykkt sé ekki virt og láti það viðgangast að hundar þeirra gangi lausir, þá er það mjög slæmt mál og getur bara endað með því að gripið verði til róttækra aðgerða!
Okkur ber að virða þær samþykktir sem gilda um þetta svæði okkar, skilyrðislaust!

Nú fer að líða að þeim tíma að líf fari að færast í hesthúsahverfið okkar við Vindás - og skora ég því á alla félaga sem eiga hunda og eru með þá með sér í hesthúsunum (sem ekki er bannað) að sjá til þess að hundarnir gangi alls ekki lausir um hverfið!!!

Bestu kveðjur,
Stefán Logi Haraldsson
Form. Hmf. Skugga
 

06.12.2014 23:05

Áminning - forðagæsla

Frestur til að skila inn forðagæsluskýrslu til Matvælastofnunar rann út fyrir viku síðan. Allir búfjáreigendur skulu fylla út þar til gerða forðagæsluskýrslu og senda til Matvælastofnunar. Á forðagæsluskýrslu kemur fram bústofn hvers og eins ásamt upplýsingum um heyforða og landstærðir.

Allir búfjáreigendur sem Matvælastofnun er með skrá yfir og hafa áður skilað forðagæsluskýrslu fengu bréf frá stofnuninni fyrr í haust og voru beðnir um að skila inn lögboðnum upplýsingum fyrir 20. nóvember sl. Ennþá er þó hægt að skila inn skýrslu. Það er hægt með því að fylla út rafræna forðagæsluskýrslu í Bústofni (www.bustofn.is) eða hafa samband við Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins sem aðstoðar bændur við að skila inn skýrslu með rafrænum hætti gegn gjaldi. Þeir sem ekki fengu bréf en eru eigendur að hrossum eða öðru búfé skal bent á að hafa samband við Matvælastofnun eða dýraeftirlitsmann til að tryggja að unnt sé að skrá skýrslu með rafrænum hætti í Bústofn.

28.11.2014 15:36

Aðalfundur Skugga - fundarboð

Aðalfundur Hestamannafélagsins Skugga, fyrir starfsárið okt. 2013 - sept. 2014 , verður haldinn fimmtudaginn 04. desember 2014, kl. 20:00, í Félagsheimilinu Vindási.

 

Dagskrá (skv. 6.gr. laga félagsins):

 

 1. Fundarsetning og kjör starfsmanna fundarins

 2. Skýrsla stjórnar - (Umræða um skýrslu stjórnar)

3. Gjaldkeri leggur fram reikninga félagsins til samþykktar, skoðaða og áritaða af  skoðunarmönnum félagsins - (Umræða um reikninga félagsins)

 4. Skýrslur nefnda - (Umræða um skýrslur nefnda)

5. Kynning á inngöngu nýrra fé­laga og úrsögnum félagsmanna

6. Laga­breytingar

7. Kosning stjórnar, varastjórnar, skoðunarmanna, nefnda og fulltrúa á L.H. og  U.M.S.B. þing

 8. Fé­lags- og haga­gjöld

 9. Önnur mál

10. Fundi slitið


Kaffiveitingar í boði félagsins.


Stjórn Hmf. Skugga

21.11.2014 22:41

Fréttir úr starfinu

Þessa dagana er venju fremur rólegt yfir hestamennskunni þótt nokkrir séu nú búnir að taka á hús og byrjaðir tamningar og þjálfun. En eitt og annað hefur nú verið skipulagt. Búið er að ákveða að fara í umfangsmiklar breytingar og endurnýjun á félagsheimilinu og er húsnefndin að skipuleggja það. Stefnt er að aðalfundi 4. desember og mega allir þeir sem áhuga hafa á því að taka þátt í stjórnar - eða nefndarstörfum endilega láta áhuga sinn í ljós við einhvern af stjórnarmönnum.
Mótanefnd Skugga og Faxa hefur dagsett mót vetrarins - mótaröðin, sem samanstendur af þremur mótum, byrjar 14. febrúar með fjórgangi, töltið og sleiðið 14. mars og fimmgangur og tölt 11 apríl. Útfærslan birtist síðar. Firmakeppni Skugga að venju 1. maí.  Íþróttamótið verður svo 9. og 10. maí og gæðingamótið 13. júní. Ennfremur má geta þess að stefnt er að því að félagið sæki um viðurkenningu sem Fyrirmyndarfélag ÍSÍ og verður unnið að undirbúningi þess á næstu vikum og mánuðum. 

17.11.2014 11:39

Fræðslukvöld á vegum fræðslunefndar Faxa

Kynbætur og keppnisandi!

Fræðslukvöld á vegum fræðslunefndar Faxa.

Þriðjudagskvöldið 25. nóvember kl. 20.00 á Mið- Fossum.

Erindi flytja Þorvaldur Kristjánsson kynbótadómari og kennari við Lbhí, og Viðar Halldórsson félagsfræðingur.

 

Þorvaldur Kristjánsson: Ganghæfni íslenskra hrossa - Áhrif sköpulags og skeiðgens.

Þorvaldur fjallar um samband byggingar og hæfileika íslenskra hrossa og áhrif skeiðgensins á ganglags hestsins.

Viðar Halldórsson : Viðhorf og árangur.

Viðar fjallar um forsendur árangurs einstaklinga og hópa. Sérstaklega verður fjallað um viðhorf einstaklinga sem og áhrif hins félagslega umhverfis.

Allir áhugasamir velkomnir.

Aðgangseyrir 1000 kr. ATH ekki posi á staðnum.

29.10.2014 10:09

Íslandsmeistari í járningum

Félagi okkar í Skugga, Gunnar Halldórsson, varði Íslandsmeistaratitil sinn í járningum nú fyrir stuttu. Er hann sá fyrsti sem það gerir, þ.e. verða meistari tvö ár í röð. Til hamingju Gunnar með frábæran árangur.

29.10.2014 10:08

Árshátíð hestamanna að Laugum

Árshátíð að Laugum í Sælingsdal, 15. nóvember 2014
Folaldasýning Hrossaræktarsambands Dalamanna í reiðhöllinni í Búðardal kl. 11:00
Hótelgestir velkomnir að Laugum frá kl. 14:00
Söguganga kl. 15:30
Sundlaugin opin fyrir veislugesti kl. 17-19
Íþróttahúsið opið fyrir alls kyns sprikl
Borðtennis- og billjardaðstaða
Borðhald hefst kl. 20:00
Gunnar Björnsson, veislukokkur reiðir fram:
blandaða sjávarrétti á salatbeði í forrétt og lambafillet og kjúklingabringu í aðalrétt
Veislustjóri: Lárus Ástmar Hannesson
Skemmtiatriði
Hljómsveitin B4 frá Búðardal leikur fyrir dansi
Verð: 5.500 kr. fyrir mat og dansleik
Gisting: sjá www.gladur.is
Við pöntunum taka:
Eyþór Jón Gíslason, 898 1251, brekkuhvammur10@simnet.is
Þórður Ingólfsson, 893 1125, thoing@centrum.is
Pantið endilega sem fyrst en í síðasta lagi þriðjudaginn 11. nóvember
Athugið að ekki verða vínveitingar á staðnum
Undirbúningsnefndin í Glað

22.10.2014 13:23

Framboð til stjórnar LH

Framboð til sambandsstjórnar LH 2014 - 2016

 

Ákvörðun hefur  verið tekin um framhald þingfundar 59. Landsþings LH, laugardaginn 8. nóvember n.k. kl. 9:00 í E-sal á þriðju hæð í húsakynnum ÍSÍ og LH að Engjavegi 6.

 

Í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi eru, lýsir kjörnefnd eftir framboðum til sambandsstjórnar LH til næstu tveggja ára.

 

Stjórnin skal skipuð sjö mönnum, formanni, varaformanni, ritara, gjaldkera og þremur meðstjórnendum.

Varastjórn skal skipuð fimm mönnum og taka þeir sæti í aðalstjórn í samræmi við atkvæðahlutfall.  

Formaður er kjörin sérstaklega og þarf meirihluta greiddra atkvæða. Náist ekki meirihluti við fyrstu kosningu skal kjósa á ný um þá tvo sem flest atkvæði hlutu. Ræður þá einfaldur meirihluti atkvæða.

Á fyrsta stjórnarfundi að afloknu landsþingi LH skal stjórn LH skipta með sér verkum, kjósa varaformann, ritara og gjaldkera úr hópi stjórnarmanna.

 

Kjörgengir í stjórn eru allir félagar í hestamannafélögum sem eru aðilar að LH.

 

Óskar kjörnefnd LH eftir því að framboð til stjórnar LH berist eigi síðar en á hádegi föstudaginn 7. nóvember 2014 til nefndarinnar.

Þar sem um framhaldsþing er að ræða er rétt að minna á að sömu kjörbréf gilda fyrir framhaldsfund og giltu fyrir þingið á Selfossi 17.-18. október. Breytingar á þingfulltrúum skal tilkynna tímanlega til skrifstofu LH.

Með kveðju,

Kjörnefnd LH

 

Guðmundur Hagalínsson

Sími 825 7383

Netfang ghl@eimskip.is

 

Ása Hólmarsdóttir

Sími 663 4574

Netfang asaholm@gmail.com

 

Margeir Þorgeirsson

Sími 892 2736

Netfang vodlarhestar@gmail.com

  • 1
Flettingar í dag: 1203
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 1281
Gestir í gær: 39
Samtals flettingar: 726916
Samtals gestir: 121123
Tölur uppfærðar: 22.12.2014 17:31:17