Hestamannafélagið Borgfirðingur

Velkomin á heimasíðu hestamannafélagsins Borgfirðings.

Færslur: 2010 Maí

31.05.2010 16:13

Landsmóti frestað

Ákveðið hefur verið að fresta landsmóti hestamanna í sumar vegna hrossapestarinnar sem herjað hefur á íslenska stofninn.

Þetta var niðurstaða fundar hagsmunaaðila í hrossarækt sem haldinn var í dag. Haraldur Þórarinsson, formaður stjórnar landsmótsins, segir þetta hafa verið erfiða en nauðsynlega ákvörðun. Ekki hafi verið forsvaranlegt að stefna saman hestum af öllu landinu vegna þeirrar stöðu sem upp hafi komið vegna veikinnar. Ljóst er að miklar tekjur munu tapast vegna þessarar ákvörðunar.
frettir@ruv.is

30.05.2010 13:22

Úrtaka og gæðingamót

Mótanefnd Skugga hefur ákveðið að úrtaka og gæðingarmót, sem áformað hafði verið að halda n.k. laugardag 05. júní, verði frestað um óákveðinn tíma.
Þar sem hóstapestin í hrossunum er ekki gengin yfir og auk þess mikil óvissa um Landsmót hestamanna, þar af leiðandi, þá er alveg ljóst að útilokað er að tímasetja úrtöku okkar, en nánar verður auglýst um hana þegar málin skýrast.

Með bestu kveðju,
F.h. Mótanefndar og stjórnar Skugga
Stefán Logi Haraldsson

29.05.2010 00:04

Frá stjórn Skugga

Stjórn og Beitarnefnd Skugga sendi í lok síðustu viku erindi til Borgarbyggðar, þar sem óskað  var heimildar til að sleppa hrossum í beitarhólf fyrr en samningur gerir ráð fyrir, vegna hrossapestarinnar sem nú herjar á hestana okkar.  Byggðaráð samþykkti nú í vikunni að verða við erindinu enda verði fóðrun hrossa tryggð þar sem beit er ónóg, eins og segir í bókun byggðaráðs.

Beitarnefnd Skugga hefur því ákveðið að frá og með morgundeginum (laugardag 29. maí 2010) megi félagar í Skugga sleppa hrossum sínum í Borgargirðinguna, en Beitarnefndin mun síðan sjá til þess að heyi verði komið í girðinguna, þannig að fóðrun hrossanna verði þar með tryggð.

Borgargirðingin verður síðan smöluð laugardaginn 19. júní n.k. og þurfa eigendur hrossanna þá að koma sínum hrossum í sínar girðingar (sem búið er að úthluta þeim sem sótt hafa um).  Þeir sem vilja ná í hrossin úr Borgargirðingunni fyrir þann tíma sjá sjálfir um það.

Þá hefur verið ákveðið að ekki verði heimilt að sleppa í úthlutaðar beitargirðingar fyrr en 10. júní n.k.

Beitarnefnd minnir á að áður en hrossunum er sleppt í beitargirðingarnar og Borgargirðinguna þurfa hesteigendur/umráðamenn að klippa merki sitt (úthlutuð númer) í síður hrossa sinna.

Með hestakveðju,
F.h. Stjórnar og Beitarnefndar Skugga
Stefán Logi Haraldsson

28.05.2010 20:53

Kvennareið felld niður

Kvennareiðarnefnd hefur tekið ákvörðun um það að fella niður kvennareiðina þetta árið. Hún var á áætlun 12. júní n.k. en vegna hrossapestarinnar er ekki annað í stöðunni. Því er ekki annað að gera fyrir konur en láta sér bara hlakka til næsta árs. Líklegt er að fleiri hestatengdir viðburðir hljóti sömu örlög þetta árið. 

27.05.2010 20:37

Kynbótasýning á Mið-Fossum

Héraðssýning kynbótahrossa á Vesturlandi verður að Mið-Fossum, Borgarfirði dagana 7.-11. júní næstkomandi. Tekið er við skráningum hjá Búnaðarsamtökum Vesturlands dagana 31. maí - 2. júní í síma 437-1215.

 Við skráningu þarf að koma fram númer, nafn og uppruni hrossanna, nafn og kennitala knapa og sími. Sýningargjald á hvert hross er kr. 14.500,- fyrir fulldæmd hross en kr. 10.000 fyrir hross sem aðeins er skráð í byggingardóm eða hæfileikadóm.

Sýningargjöld skal greiða á skrifstofu BV á Hvanneyri eða á reikning nr. 1103-26-100, kt.: 461288-1119. Ef greitt er í gegnum netbanka þarf að senda greiðslukvittun á netfangið bv@bondi.is. Nauðsynlegt er að fram komi nafn og númer hrossa sem greitt er fyrir. Ef ekki er greitt í gegnum netbanka, er mikilvægt að faxa greiðslukvittun á númerið 437-2015. Endurgreiðsla sýningargjalda kemur aðeins til greina að forföll séu tilkynnt áður en dómar hefjast.

Hafi greiðsla ekki borist fyrir hádegi 4. júní verður viðkomandi hross ekki skráð á sýninguna.

Reglur um kynbótasýningar má nálgast í heild sinni á vef BÍ, www.bondi.is undir hrossarækt.

Knaparnir eru beðnir um að mæta einungis með hross í góðu heilbrigðisástandi en hrossum sem sýna sjúkdómseinkenni verður vísað frá sýningunni.

27.05.2010 20:33

Nýjast um pestina

Hér er  hægt að lesa um það nýjasta um hestapestina. Nú er komið í ljós að þetta er bakteríusýking en ekki veirusýking. Greinina er að finna á vef Hestafrétta. 

26.05.2010 22:57

Frá félagi tamningamanna

Stjórn félags tamningamanna sendi frá sér eftirfarandi tilkynningu.

"Félag tamningamanna lýsir yfir áhyggjum vegna þeirrar stöðu sem er upp er komin varðandi smitandi kvefpest í hrossum. Þar sem ekki hefur tekist að greina veiruna eru afleiðingar pestarinnar enn óljósar og hún virðist þrálát og erfið viðureignar. Því vill Félag tamningamanna hvetja hesteigendur til að huga fyrst og fremst að velferð hrossa sinna og hafa hag hestsins ávallt að leiðarljósi.
FT hvetur félagsmenn sína og alla hestamenn til að fara varlega hvað þjálfun hrossa varðar og flýta sér hægt enda dæmi um hörmulegar afleiðingar ef of snemma er farið af stað. Samkvæmt siðareglum FEI, sem er alþjóðlegt stjórnvald hestaíþrótta og Landssamband hestamannafélaga er aðili að, skal velferð hestsins ætíð vera í fyrirrúmi. Í siðareglum FEI/LH segir m.a. að "á öllum stigum undirbúnings og þjálfunar keppnishrossa skal velferð hrossins hafa forgang fram yfir allt annað" og FEI geri þær kröfur að " allir þeir sem taka þátt í alþjóðlegum hestaíþróttum fari að siðareglum FEI og viðurkenni og virði öllum stundum að velferð hestsins skuli alltaf hafa forgang fram yfir keppnis-eða auglýsingakröfur." Um aðbúnað og þjálfun segir svo "Hesthús, fóðrun og þjálfun skulu uppfylla kröfur um góða meðferð hrossa og mega ekki stefna velferð þeirra í tvísýnu. Allt sem orsakað getur andlegar eða líkamlegar þjáningar, í keppni eða utan hennar verður ekki liðið" og "Hross skulu ekki vera þjálfuð á þann hátt að það stefni líkamlegri eða andlegri getu og/eða þroska í voða." Þessar reglur er rétt að hafa í huga í ljósi núverandi aðstæðna og muna alltaf að hafa hagsmuni hestsins í fyrsta sæti.
FT hefur miklar áhyggjur af afkomu tamningamanna um þessar mundir og hvetur fólk til að huga vel að hrossum svo lágmarka megi skaðann og hægt verði að vinna sig út úr þessum vanda sem fyrst.
Stjórn FT hvetur sína félagsmenn til að hafa samband og kynna sín sjónarmið þannig að stjórnina geti sem best beitt sér í þeirra þágu.
Einnig minnir Félag tamningamanna á reglur um smitvarnir, en þær má m.a. skoða á heimasíðu Matvælastofnunar, www.mast.is. Gríðarlega mikilvægt er að hestamenn sem ferðast á milli landa til vinnu eða samskipta við hross fylgi reglum um smitvarnir ítarlega. Ekki síður að hestamenn og ferðaþjónustuaðilar hér á landi fræði viðskiptavini sína um þessar reglur. Heilbrigði íslenska hrossastofnsins er í húfi."

Stjórn Félags tamningamanna.


22.05.2010 21:19

Hrossapestin - stöðumat 20.maí

Bent er á grein sem birtist á vef hestafrétta um stöðuna eins og hún lítur út núna. Með því að smella á tengilinn þá flytjast lesendur yfir á vef Hestafrétta. 

21.05.2010 00:04

Uppfærð viðburðadagatöl

Nú er uppfærð dagatöl að finna undir "Fréttabr. og skjöl". Þessa dagana standast áætlanir sem gerðar eru fyrir löngu og varða mótahald engan veginn. 

20.05.2010 14:41

Frestun viðburða

Það þarf engum að koma á óvart að Skuggadísir hafa fellt niður útreiðartúrinn sem vera átti í kvöld. Eins hefur kvennareið verið frestað til 12. júní. Þá er vonandi að pestin verði yfirstaðin og hross komin í gang aftur. Nú eru komnar tvær vikur síðan útreiðar féllu niður í hesthúsahverfinu. 

18.05.2010 22:24

Viðtal í Eiðfaxa

Vakin er athygli á ágætu viðtali við Sigríði Björnsdóttir dýralækni sem birtist á heimasíðu Eiðfaxa. Er þar fjallað um pestina sem nú herjar á hestaheiminn og er búin að spilla margri gleðistundinni fyrir mörgum. 

Héðan er hægt að komast beint inn á viðtalið. 

17.05.2010 19:41

Girðingarpantanir

Vakin er athygli á því að þann 19. maí rennur út frestur til að skila inn umsóknum um girðingarhólf. Umsókn berist einhverjum girðingarnefndarmanni - sjá frétt neðar á síðunni. 

12.05.2010 21:45

Tiltektin

Þá er lokið tiltekt í hesthúsahverfinu og næsta umhverfi þess. 14 manns mættu og fóru um svæðið. Ruslið sem safnaðist var töluvert eða vel í tvo gáma (timbur og járn) auk plasts og annars sem fokið hefur í skurði frá því síðast var hreinsað. Nú þurfum við öll að ganga vel um því við við viljum hafa fínt í kringum okkur í sumar. Að hreinsun lokinni kom hópurinn saman í félagsheimilinu og fagnaði góðu verki. 

11.05.2010 21:11

Tiltekt í hesthúsahverfinu

Á morgun miðvikudagskvöld, 12. maí verður hreinsunardagur í hesthúsahverfinu. Við ætlum að hittast kl. 18:00 og hreinsa til í kringum hesthúsin okkar.

Léttar veitingar í félagsheimilinu á eftir.

Umhverfisnefnd Skugga.

11.05.2010 14:09

Orðsending frá L.H

Landssamband hestamannafélaga vill vekja athygli ykkar á breyttri dagsetningu Íslandsmóts yngri flokka.
Íslandsmót yngri flokka verður haldið á Hvammstanga hjá hestamannafélaginu Þyt dagana 12.-15. Ágúst 2010.

Flettingar í dag: 184
Gestir í dag: 67
Flettingar í gær: 155
Gestir í gær: 70
Samtals flettingar: 1750153
Samtals gestir: 200237
Tölur uppfærðar: 15.12.2018 13:31:44

Auglýsingar

Umsjón heimasíðu

Nafn:

Kristján Gíslason
clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 184
Gestir í dag: 67
Flettingar í gær: 155
Gestir í gær: 70
Samtals flettingar: 1750153
Samtals gestir: 200237
Tölur uppfærðar: 15.12.2018 13:31:44