Hestamannafélagið Borgfirðingur

Velkomin á heimasíðu hestamannafélagsins Borgfirðings.

Færslur: 2011 Maí

31.05.2011 23:50

Gæðingamótið og úrtakan

Minnt er á Gæðingamót félagsins sem haldið verður á laugardaginn kemur, þann 4. júní. Frestur til skráningar rennur út á hádegi á fimmtudag. Áríðandi er að allar skráningar verði komnar þá því ráslistar munu birtast á fimmtudagskvöld. Það er ekki eftir neinu að bíða með að skrá - engin skráningargjöld. 

29.05.2011 23:03

Félagsreiðtúrinn

Milli  40 og 50  manns tóku þátt í félagsreiðtúrnum ("bæjarstjórnarreiðinni") í gærkvöldi. Veður frábært og bara gaman. Menn gerður vel við sig á leiðinni og síðar í mat og drykk í félagsheimilinu að reiðinni aflokinni. Formaður fór fyrir hópnum eins og sést nokkuð vel á myndinni sem fylgir hérna.

 

Síðan var étin hin besta kjötsúpa og h nni rennt niður með einum köldum.


27.05.2011 22:30

Arionbankamótið

Minnt er á Arionbankamótið sem haldið verður á velli Skugga laugardaginn 4. júní. Mótið er gæðingamót og úrtaka fyrir Landsmótið á Vindheimamelum. Þrjú sæti í hverjum flokki eru frátekin fyrir Skugga þar. Því öðlast þrír efstu í hverjum flokki, eftir forkeppni, keppnisrétt á LM 2011. Skoðið auglýsinguna en þar er allar helstu upplýsingar að finna. 

26.05.2011 11:29

Félagsreið

Tilkynning um félagsreiðtúr 

(Bæjarstjórnarreið)

Hinn árlegi reiðtúr félagsmanna Skugga verður hinn 28. maí, n.k.   Eins og nú er orðið í tísku verður lagt af stað frá tamningagerðinu  "tunnunni"  kl. 19:00  stundvíslega . Ekki er gert ráð fyrir að fara hefðbundna reiðleið. Æskilegast er að vera einhesta. Áætlað er að koma til baka í hesthúsahverfið um kl. 21:00 og setjast að snæðingi m.t.h. í félagsheimilinu.  Kostnaður á mann er 1.000 kr.  Vonir standa til að þátttakendur þar verði leiddir saman í söng. Samkomunni lýkur á ellefta tímanum.

Allir velkomnir. 

25.05.2011 11:20

Karlrembureiðin

Karlrembureiðin verður miðvikudaginn 1. júní 2011 og verður lagt af stað frá ,,tunnunni" stundvíslega kl. 17:00.  Þá eða einhverju seinna kemur í ljós hvert ferður farið eða hvort yfirleitt verður farið eitthvað lengra.  Síðan er stefnt að því að koma að félagsheimili Skugga á bilinu 21:00 til 22:00 og þá verður grillað fyrir þá sem hafa matarlyst.  Það er nokkuð öruggt að þessi tími ætti að duga til að komast frá ,,tunnunni" og að félagsheimilinu.

Þátttökugjald er 2.000 og skal greiðast í upphafi ferðar ef ferð skyldi kalla.

Þátttaka tilkynnist til Ámunda 892 5678 eða Inga 860 2181 í síðasta lagi kl. 23:07 mánudaginn 30. maí 2011.  Þeir sem ekki tilkynna þátttöku fara að sjálfsögðu ekki með og enginn mun sakna þeirra.

Þátttakendur mega taka hvað sem þeim sýnist með nema kvenfólk.  Láti þátttakendur sjá sig í fylgd kvenmanns eftir kl. 16:30 miðvikudaginn 1/6 nk. varðar það sektum sem renna í ferðasjóð skipuleggjenda.

UNDIRBÚNINGSNEFNDIN

23.05.2011 23:04

Frá umhverfisnefnd

Hreinsunardagur hestamannafélagsins Skugga var s.l. sunnnudag.  Þá kallaði umhverfisnefnd félagsins eftir sjálfboðaliðum til þess að hreinsa til í hesthúsahverfinu og umhverfi þess auk þess sem lögð var áhersla á að hver tæki til hjá sér.  Gámar voru staðsettir við félagsheimilið fyrir það sem saman safnaðist.  Það var því miður ekki fjölmennur hópur sem mætti,  en þau sem það gerðu  tóku þeim mun betur á.   Vinnan gekk vel og að lokinni hreinsun í hverfinu voru rifnar upp ónýtar girðingar með nýja reiðveginnum í landi Holts og þær fjarlægðar. Einning ræsti Magnús "gæðakokkur" sem var á lítilli gröfu fram vatn sem rann að veginum.   Af þessu starfi var mikil bót.  Eftir erfiðið settist hópurinn niður í félagsheimilinu og gæddi sér á pyslum.  Umhverfisnefndin þakkar þeim sem tóku  þátt  í þessu verkefni.   Jafnfram bendir nefndin á einhverjir áttu eftir að fjarlægja tæki og dót sem ekki hefur verið hreyft lengi og lítur út fyrir að vera ónýtt og ber því að fjarlægja.

23. maí, 2011.

Umhverfisnenfd Skugga. 

23.05.2011 22:51

Gæðingamót og úrtaka

Laugardaginn 4. júní verður Gæðingamót Skugga haldið á vekki félagsins við Vindás. Er þetta mót jafnframt úrtaka fyrir landsmótið á Vindheimamelum sem byrjar í síðustu viku júní. Keppt verður í hefðbundnum flokkum gæðingamóts, barna - unglinga - ungmenna, B flokki og A flokki gæðinga. Áætlað er að mótið hefjist á forkeppni í barnaflokki kl. 10 árdegis. Að loknum úrslitum verða kappreiðar, keppt verður í stökki, brokki og 150 m. skeiði. 
Mótanefnd óskar eftir sjálfboðaliðum til starfa við mótið - það vantar í ýmsi störf s.s. kynni, ritara, fótaskoðun, hliðvörslu og svo mætti telja áfram. Endilega hafið samband við formann, Reyni Magg í s: 860 - 9014 sem allra fyrst. Ekki verða innheimt skráningargjöld af félögum í Skugga. Keppnishestar þurfa að vera í eigu félagsmanna - gildir þó ekki í kappreiðum. Auglýsing um mótið verður send út síðar í þessari viku en skráningarfrestur hefur verið ákveðinn til kl. 12 á hádegi fimmtudaginn 2. júní. Skráning sendist á Kristján Gíslason fyrir þennan tíma. 

19.05.2011 23:35

Kynningarfundur

Í kvöld hélt VÍS kynningu á tryggingum sem hestamenn eiga völ á hjá félaginu og eins var fjallað almennt um öryggismál. Áður var boðið upp á Borgarnes grillkjöt frá Gæðakokkum. Var gerður góður rómur að hvorutveggja. Hér að neðan eru myndir teknar við þetta tækifæri. 


19.05.2011 23:27

Frá umhverfisnefnd

Sunnudaginn 22. maí verður umhverfisdagur okkar hestamanna. Við hittumst kl. 10 og tökum höndum saman og tökum til og gerum snyrtilegt í kringum okkur og svæðið okkar. Gámar verða á planinu við Félagsheimilið. Áætlum að vera búin um kl. 13.

Pylsuveisla á eftir.

Umhverfisnefndin.

17.05.2011 23:00

Kvennareiðin

Nú er mjög að styttast í það að lagt verður af stað í kvennareið. Fjöldi reiðfærra kvenna er farinn að huga að nauðsynlegum undirbúningi en ef auglýsingin hefur farið fram hjá einhverri þá er bara að skoða hana. Laugardagurinn er dagurinn. 

17.05.2011 22:43

Kynningarfundur

Kynningarfundur um tryggingavernd fyrir hesteigendur

Í framhaldi af nýlega gerðu samkomulagi á við VÍS og Arion banka um stuðning þessara félaga við starfsemi Skugga er boðað til fundar í félagsheimili Skugga fimmtudaginn 19. maí, n.k. kl. 19:30

Á fundinum kynna fulltrúar Vátryggingafélags Íslands þá tryggingavernd sem félagið býður hesteigendum, svo sem tryggingar reiðhesta, kynbótahrossa, sjúkrakostnaðartryggingar og ábyrgðartryggingar.

Í upphafi fundarins verður boðið upp á veitingar af grilli frá Gæðakokkum. Kynnt verður endurkoma gamla góða Borgarnes grillkjötsins

Félagsmenn eru hvattir til að fjölmenna og eiga saman góða stund.

Borgarnesi, 16. maí, 2011

Stjórn Skugga 

15.05.2011 20:42

Samstarf við Arionbanka og Vís

Vís, Arion banki og hestamannafélagið Skuggi hafa gert með sér samstarfssamning um að Vís og Arion banki verði bakhjarlar félagsstarfs hestamannafélagsins. VÍS og Arion banki munu veita fjárhagslegan stuðning vegna reiðnámskeiða fyrir börn og ungmenni. Einnig munu þau styrkja mótahald á vegum félagsins. Ennfremur mun Vís leggja til fræðslu til félagsmanna um tryggingar gripa og fasteigna auk þess að kaupa auglýsingu á félagsheimili hestamannafélagsins.

Það er von allra hlutaðeigandi að þetta samstarf muni efla það kraftmikla og góða starf sem á sér stað hjá hestamannafélaginu og muni styðja við áframhaldandi uppbyggingu hestamennsku á svæðinu.

12.05.2011 22:46

Uppfærð dagatöl

Búið er að uppfæra viðburðadagatöl fyrir maí og júní. Endilega kynna sér hvað framundan er. Eru þau einnig aðgengileg undir "Fréttabr. og skjöl". 

08.05.2011 01:02

Úrslit íþróttamóts

Þá er búið að taka saman úrslit íþróttamótsins. Eins og einkunnir gefa til kynna voru úrslitin sterk og veisla fyrir augað. Myndir frá verðlaunaafhendingum eru svo komnar í myndalbúmið. Þakkir til Inga Tryggvasonar og Ágústu Óskarsd. fyrir þær. 

07.05.2011 21:11

Að loknu íþróttamóti

Þá er lokið stórgóðu íþróttamóti. Veðrið var auðvitað eins og það best getur orðið og spillti það ekki fyrir. Milli 70 og 80 skráningar voru og gekk framkvæmdin vel fyrir sig. Úrslitin voru sannkölluð veisla en þar þurftu dómarar að nota stóru spjöldin, t.d. fékk Reynir Aðalsteinsson á Sikli f. Sigmundarstöðum 9 frá tveimur dómurum fyrir tölt í úrslitum í fimmgangi. Einkunnir milli 7 og 8,5 sáust líka nokkrum sinnum, t.d. í barnaflokki og víðar. Sem sagt sterkt mót. Mótanefnd þakkar öllum þeim sem komu að framkvæmd mótsins, dómurum, kynni og öðrum starfsmönnum,  kærlega fyrir vel unnin störf og eins er öllum þeim er kepptu, margir langt að komnir, þakkað fyrir þeirra þátt í þessu móti. Innan tíðar birtast úrslitin hérna á síðunni og vonandi fáum við einnig að sjá myndir frá deginum. 
Flettingar í dag: 146
Gestir í dag: 66
Flettingar í gær: 155
Gestir í gær: 70
Samtals flettingar: 1750115
Samtals gestir: 200236
Tölur uppfærðar: 15.12.2018 12:59:53

Auglýsingar

Umsjón heimasíðu

Nafn:

Kristján Gíslason
clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 146
Gestir í dag: 66
Flettingar í gær: 155
Gestir í gær: 70
Samtals flettingar: 1750115
Samtals gestir: 200236
Tölur uppfærðar: 15.12.2018 12:59:53